• 20/04/2016

 

Í mínu starfi eiga verkefnin til að vera mjög fjölbreytt. Ég hef tekið myndir við gleðileg tilefni á borð við brúðkaup, fermingar og útskriftir, dapurleg tilefni á borð við útfarir, tekið myndir í heilt fjáröflunardagatal, farið í heilsdagsferðir með brúðhjón um Suðurlandið, tekið starfsmannamyndir, myndað allt í kringum leiksýningar (m.a. kynningarefni, sýninguna sjálfa og það sem gerist baksviðs). Auk þess hef ég myndað blaðamannafundi, húsgögn, mat, fjölskyldur og einstaklinga (oftar en ekki listafólk af ýmsum toga, en einnig afreksíþróttafólk á borð við bardagakappann Gunnar Nelson og skylmingameistarann Þórdísi Ylfu, að ógleymdri Kim Campbell fyrrverandi forsætisráðherra Kanada), íþróttaviðburði og ýmislegt fleira.

Fyrir nokkru bættist enn á listann. Þá var ég fenginn til að taka myndir fyrir Klíníkina; tiltölulega nýopnaða, einkarekna læknastofu í Ármúla. Annars vegar átti ég að taka myndir af glæsilegri aðstöðunni og hins vegar af læknum og hjúkrunarfræðingum í miðri aðgerð.

Ég tók auðvitað að mér verkefnið án þess að hugsa mig um; það var einfaldlega of spennandi til að segja nei við. Það var ekki fyrr en einhvern tímann eftir á sem ég fór að velta því fyrir mér að það væri kannski ekkert víst að ég myndi höndla það að fylgjast með skurðaðgerð.

Reyndar fór svo að ég tók myndir í tveimur aðgerðum, annars vegar æðahnútaaðgerð og hins vegar þar sem fram fór uppbygging brjósts í kjölfar krabbameinsmeðferðar. Þetta gekk að sjálfsögðu allt saman vel, bæði að mynda húsnæðið og að taka myndir í aðgerðunum. Og ég hafði svo sannarlega gaman af.

Loka